<$BlogRSDUrl$>

Samfélagsrýni, pælingar um lífið og tilveruna og annað sem mér dettur í hug.

föstudagur, nóvember 05, 2004

Bush, Arafat, Þórólfur og fleira
Ýmislegt að gerast í fréttum undanfarið. Ég er mjög svekkt yfir því að Bush hafi sigrað í kosningum vestra, en átti samt einhvernvegin von á því og hafði því ekki fyrir því að gíra mig upp í einhvern spenning. Var kannski ekki heldur neitt yfirmáta hrifin af Kerry, þó mér hafi þótt hann skárri kostur en Bush.

Aðrar merkilegar heimsfréttir eru veikindi Arafats. Virðist vera að lífi hans sé lokið og ástæða þess að hann sé enn tengdur við vélar séu einfaldlega til að fresta því að úrskurða hann látinn á meðan verið er að greiða úr flækjunni um hvar eigi að jarða hann. Samkvæmd íslam má nefnilega ekki líða meir en sólarhringur frá andláti og þar til viðkomandi er jarðaður. Dauði hans mun án ef hafa talsverð áhrif á friðarumræður en áhrifin gætu í raun verið á hvorn vegin sem er - annars vegar að öfgafullir palestínumenn nái betri fótfestu, eða að það rúm sem Arafat skilji eftir sig skapi rými fyrir nýtt fólk sem takist að afla þess traust sem nauðsynlegt er til að viðkomandi geti rætt við óvinninn til að leita sameiginlegra lausna.

Svo eru það innanlandsmálin. Nenni varla að tjá mig um þau. Var kærkomið að fá smá frí frá fréttum um kennaraverkfallið - en þær munu væntanlega bresta á aftur strax eftir helgina þegar úrslit úr kosningum verða ljós. Miðað við það sem heyrst hefur frá kennurum ættu samningar að kolfalla - en þar sem oft heyrist hæst í þeim óánægðu er ég ekki alveg viss um að úrslitin verði á þeim nótum.

Hefði helst viljað hafa Þórólf áfram borgarstjóra en sýnist flest stefna í að svo verði ekki. Maður veit samt aldrei og Þórólfur seigur að verja sig. Hann er skemmtilega einlægur og ég kann vel að meta það. Á meðan sitja aðrir sem aðild áttu að samráðinu, og sumir þeirra sem báru talsvert meiri ábyrgð en Þórólfur, öryggir í holum sínum og passa sig að láta engan ná af sér tali. Sumir jafnvel drifið sig til útlanda til að forðast hugsanlegt áreiti. Er ekki verið að hengja bakara fyrir smið hér????

þriðjudagur, september 21, 2004

Ég er enn á lífi...

Hm, á ekki von á að nokkur maður lesi þessa síðu lengur, enda lítið verið í því að bæta neinu á hana. Mikið í gangi. Er að fara að flytja í Borgarnes eftir nokkra daga. Gaman, gaman (vona ég a.m.k!). Hef verið í átaki undanfarnar vikur - að reyna að koma mér af stað aftur í almennilega hreyfingu. Þriðja vikan sem ég vakna á morgnanna til að fara í ræktina og finnst ég auðvitað rosa dugleg.

Vinnan kallar - engin miskunn - þannig að þetta verður ekki lengra að sinni.

þriðjudagur, maí 11, 2004

Er eitthvað að brasast - enn og aftur - með commentakerfi. Sjáum hvernig gengur.
Ég veit...
...hver úrslitin í Survivor verða. Ljónynjan er í Kanada þessa dagana og þrátt fyrir að dvelja á heimili þar sem aldrei er kveikt á sjónvarpinu nema örsjaldan til að horfa á barnaefni tókst henni einhvernvegin að komast að því hvenær Survior Allstar væri á dagskrá og laumast til að horfa. Svo bara voru úrslitin allt í einu komin og mér skilst að enn sé vika í að þau verði sýnd heima á Íslandi.

Er annars að skoða þetta nýja útlit á bloggvefþjóninum. Tekur sjálfsagt smástund að venjast, sérstaklega fyrir svona tiltölulega óvirka bloggara eins og Ljónynjan er, en vonandi er þetta til bóta. Bless í bili.

miðvikudagur, apríl 28, 2004

Vorið
Tek allt í einu eftir því að grasið er alveg að verða grænt á flötinni fyrir neðan gluggann minn í vinnunni. blár himinn, sjórinn og grænt gras. Ég held að vorið sé að koma. Bara tveir dagar þar til ég flýg úr landi. Gott mál.

Finnst ég ætti að tala um fjölmiðlafrumvarpið eða eitthvað annað gáfulegt, þar sem ætlunin var nú alltaf að vera með einhverja samfélagsrýni hér á þessum síðum, en í augnablikinu er mér bara einhvernvegin alveg sama. Ég er svo upptekin af því að ég sé að fara í burt og ætli að taka mér smá tíma fyrir sjálfa mig, að mér er slétt sama um samfélagsmálin, pólitíkina og allt það, í bili.

þriðjudagur, apríl 27, 2004

Skapvont ljón
Ljónynjan verið óvenju skapvond og pirruð síðustu daga. Reyni samt eins og ég get að haga mér siðsamlega, og hefur að mestu tekist, að því undanskildu að ég stalst til að setja alla skó nágranna minna í eina hrúgu þegar enginn sá til!!! Sem betur fer er ég á leið úr landi og vonast til að skola af mér þessi leiðindi á leiðinni yfir hafið.

laugardagur, apríl 17, 2004

Brasið á Birni
Ég hef alltaf haldið dálítið upp á Björn Bjarnason síðan ég vann sem blaðamaður. Hann var alltaf svo fljótur að svara ef maður var að reyna að ná í hann og talaði svo skýrt og skorinort að það var næstum hægt að vélrita fréttir beint upp. Þurfti lítið að laga til og endurskipuleggja eins og oftast. Þannig að þótt að ég sé mjög oft efnislega óssammála honum, hefur ég samt alltaf verið ágætlega jákvæð gagnvart honum svona sem persónu. Mér finnst hinsvegar viðbrögð hans við úrskurði kærunefndar jafnréttislaga svo hallærisleg að ég held ég verði að endurskoða afstöðu mína. Tók ekki Björn sjálfur þátt í að setja þessi lög? Hefur hann einhverntíman gagnrýnt lögin áður, og talað um að þau væru barn síns tíma? Ekki man ég hann t.d. taka upp hanskann fyrir Valgerði Bjarnadóttur, jafnréttisstýru, sem var gert að taka þá ábyrgð á því máli sem hún tengdist með því að fórna starfinu sínu. Nei, það er ekki fyrr en hann er sjálfur gagnrýndur fyrir að brjóta lögin sem hann fer að tala um að eitthvað sé athugavert við þau. Ekki mjög trúverðugt!
Arg...
Frekar fúl vika. Hófst á því að ég komst að því að fartölvan mín var horfin. Hefur sennilega verið stolið úr minni eigin íbúð beint fyrir framan nefið á mér. Ekki króna úr tyggingum fyrst að engin merki eru um innbrot. Var í þvílíku ruslu í eina tvo daga en svo nennti ég bara ekki að velta mér mikið meira upp úr þessu. Verður bara að hafa það. En viðurkenni að þetta setti mig hressilega út af laginu, ekki síst þar sem tilveran hafði verið dálítið erfið fyrir og því óvenju auðvelt að koma mér úr jafnvægi.

mánudagur, mars 29, 2004

Helgin
Helgin var óvenju annasöm. Kóræfing, tónleikar, leiksýning, matarboð.... Mér líður hálf undarlega þessa dagana enda tilveran verið frekar óvenjuleg undanfarnar vikur - eða eiginlega undanfarna mánuði. Alveg síðan í desember hefur mér líðið eins og ég sé stödd í einhverju tómarómi og viti ekki almennilega hvert ég er að fara. Hef þurft að taka á öllu sem ég á til að halda fast í sjálfsmyndina, hver ég er og hvað ég stend fyrir. Er að vonast til að ég sé farin að sjá í ljósið og framundan sé aðeins meira fast land undir fótum. Lífið er leiðinlegt án hæfilega mikillar óvissu. Það verður að vera pláss fyrir hið óvænta. En mér finnst svolítið erfitt þegar óvissan ríkir á öllum sviðum lífsins í einu.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?