<$BlogRSDUrl$>

Samfélagsrýni, pælingar um lífið og tilveruna og annað sem mér dettur í hug.

mánudagur, desember 29, 2003

Alltaf að læra eitthvað nýtt. Var að brasast við að setja kommentakerfi inn á síðuna. Nú er bara að bíða og sjá hvort þetta virkar.
Var hjá tannlækni. Var svo heppin að komast að til gamla tannlæknisins míns í heimabænum með svo til engum fyrirvara (tannlæknirinn er ekkert voðalega gamall - heldur kona á miðjum aldri - en þetta er sem sagt tannlæknirinn sem ég var með í "gamla daga" þegar ég var að alast upp). Það er mjög sniðugt að vita ekki nema með klukkutíma fyrirvara að maður sé að fara til tannlæknis. Þá hefur maður engann tíma til að vera kvíðinn.

Þurfti að deyfa mig og laga sprungna fyllingu. Mörg ár síðan þurfti að gera slíkt og tannlæknaminningar æskuáranna helltust yfir mig í stólnum. T.d. sú staðreynd að ég virðist vera lengur að deyfast en flestir aðrir - og það hefur sem sagt ekkert breyst. Ég er orðin passlega dofinn svona um það bil þegar búið er að gera við! Og finn þar af leiðandi alltaf til þegar borinn fer af stað, jafnvel þó búið sé að stinga deyfisprautunni margoft í mig. En þetta var nú samt ekki svo slæmt. Og frábært að fá tönnina í lag.

sunnudagur, desember 28, 2003

Jólabókin í ár? Da Vinci lykillinn. Alveg frábær og margfalt betri en Bettý hans Arnalds - þó hún sé svo sem allt í lagi líka. En sú fyrrnefnda er bara svo rosalega góð. Ég hef sem sagt mest verið í spennubókunum þessi jólin. Er líka hálfnuð með bóksalann í Kabúl sem er fróðleg lesning.

þriðjudagur, desember 23, 2003

Þorláksmessumorgunn. Ljónynjan á enn eftir að kaupa jólagjafir fyrir ljónamömmu og ljónapabba. Loksins byrjuð að fá hugmyndir þó, þannig að það er aldrei að vita nema þetta hafist. Kannski hún skelli sér á flugmiða í leiðinni fyrir sjálfa sig - bara svona til að eiga.... Árið framundan er óljóst og því ágætt að hafa a.m.k. einn fastan punkt framundan, sem er utanlandsferð einhverntíman í vor til að heimsækja litla ljónsungann í Kanada.

föstudagur, desember 19, 2003

Færsla á hverjum degi. Hvað er að gerast? Þetta þýðir bara eitt. Ljónynjunni leiðist. Ekkert við að vera. Engin verkefni sem bíða og bara engan vegin í stuði til að fara af stað og útvega mér þau sjálf. Ég veit þetta er dálítill aumingjaháttur í mér en svona er það bara í augnablikinu. Býð eftir að blessuð jólin komi og finnst einhvernvegin ekki taka því að fara af stað fyrr en allt það stúss er um garð gengið. Annars merkilegt hvað lífið er stundum af eða van. Ef ég rifja upp desember fyrir ári síðan þá var hann bara hálf klikkaður því það var svo rosalega mikið að gera. Tvær fundarferðir erlendis, sex tónleikar með kórnum, fullt að gera í vinnunni.....

Jól og áramót eru ekki bara tími til að slaka á, vera með fjölskyldu, finna friðsældina og hugsa um boðskapinn. Þau eru líka ákveðin skil og í kjölfar þeirra hefst nýtt upphaf. Mér veitir ekki af því nú, því það er einhver doði í mér sem ég þarf að hrista burt.

fimmtudagur, desember 18, 2003

Ég er eitthvað voðalega upptekin af Saddam Hussein þessa dagana. Las í einhverjum fjölmiðlinum vangaveltur um hvers vegna fornafn hans væri svo oft notað í fjölmiðaumræðu, ólíkt því sem yfirleitt er gert - nema þá hér á Íslandi þegar talað er um Íslendinga. Við tölum ekki um George, Yesser og Nelson - heldur Bush, Arafat og Mandela, nema við notum bæði nöfnin. Enn hvers vegna er þá alltaf talað um Saddam Hussein, eða bara Saddam - en aldrei bara Hussein? Ég held að það sé mjög einföld skýring á þessu, sem er sú að í nágrannaríki Íraks, Jórdaníu, ber konungsættinn sama eftirnafn. Hussein konungur, sem var við völd mestan þann tíma sem Saddam Hussein réði ríkjum í Írak, var jafn vel liðinn og Saddam Hussein var hataður og hvorki íbúar Miðausturlanda né Vesturlandabúar kærðu sig um að rugla þeim saman. En þetta er nú bara mín heimatilbúna skýring.

Og svo er það siðferðislega spurningin - má dæma Saddam til dauða? Ég held að svarið við þessari spurningu hljóti að vera samhljóða svari fólks við því hvort því finnist yfir höfuð að dauðarefsingar eiga rétt á sér. Ef þér á annað borð finnst í lagi að dæma afbrotamenn til dauða, ef glæpurinn er nógu alvarlegur, þá finnst sjálfsagt flestum í lagi að Saddam Hussein fái að fjúka. En ef þú ert mótfallinn dauðarefsingum er ekkert hægt að gera undantekingu í þessu tilfelli. Sjálf byggi ég mína afstöðu gegn dauðarefsingum á því að mér finnst einn glæpur ekki réttlæta annan, en þó fyrst og fremst á þeirri skoðun minni að það sé ekki okkar að ákveða hver eigi rétt á að lifa og hver ekki. Ég læt það æðri hendur. Held samt að það sé mjög auðvelt að vera á móti dauðarefsingum þó þú sért trúlaus, og byggja á almennum siðferðisrökum, eða jafnvel á rökum um hvað sé samfélaginu fyrir bestu. T.d. er langt í frá öryggt að það sé samfélaginu eitthvað betra að drepa glæpamennina. Kannski að það sé meira "lækning" fyrir samfélög í sárum að heyra þá sem stóðu fyrir voðaverkum viðurkenna það og iðrast, heldur en að "vondu mönnunum" sé refsað með grimmilegum hætti. Þannig hafa svokölluð sannleiksréttarhöld (truth commissions) virkað nokkuð vel eins og í Suður-Afríku, þar sem ákveðið var að dæma ekki til refsingar í dómsstólum ef menn voru tilbúnir að að játa og iðrast opinberlega.

miðvikudagur, desember 17, 2003

Skammdegið í algleymingi. Ekki beint minn tími. Ljónynjan vill sól og birtu. Reyndar kann ég því ágætlega að slaka á við kertaljós en vandinn er bara að þegar er dimmt mestallan sólarhringinn þá kemst ég aldrei í gang, kem litlu í verk, og einhvernvegin er slökunin ekki eins ljúf þegar ekki er verið að hvíla sig eftir átök og gott dagsverk. Þessa dagana er ég eigin herra og sennilega er ég bara ekki nógu harður húsbóndi við sjálfa mig. A.m.k. ekki þegar er myrkur.

Ég fór á kóræfingu í gær og allir voru rosalega þreyttir. Alveg að gefast upp í öllu jólastressinu. Ég fékk hálfgert samviskubit yfir því að vera ekki líka stressuð og þreytt og fór strax að fá þá tilfinningu að það væri nú eitthvað að fyrst ég væri ekki á kafi í öllu þessu stressi. Ég held reyndar að blessað jólastressið sé að mestu leyti tilbúningur okkar sjálfra. Þá á ég ekki við að það fólk sem maður hittir sé ekki í alvöru þreytt og stressað - heldur hitt að ein ástæðan fyrir því er sú að það búast allir við því. Ef maður vill spila eftir reglum samfélagsins þarf maður að passa sig á því að hlaða nógu miklu á sig þennan mánuð til að vera með og njóta taugastríðsins með hinum. Það er nefnilega oft ekkert gaman að vera einn útundan í rólegheitum ef allir eru að tapa sér í kringum mann.

þriðjudagur, desember 16, 2003

Saddam er fundinn og allir voða glaðir með það. Eins og við var að búast kom strax upp umræða um hvort réttlætanlegt hefði verið að birta myndir af honum, með tilliti til Genfarsáttmálans. Í þessu tilfelli fannst mér almannahagsmunir vega þyngra. Miklu skiptir að hér sé enginn óvissa, hann sé fundinn og allir viti það. Síðan á hann auðvitað að fá réttláta málsmeðferð. En ég held að sé mjög gott að hann fannst og náðist á lífi. Það kemur í veg fyrir að hann muni lifa í sögunni sem holdgerfingur hins illa - eins og t.d. Hitler. Ég held að það hafi verið heimsbyggðinni hollt að sjá þennan skeggjaða, þreytulega mann gefast upp. Myndirnar minna á að þrátt fyrir allt er Saddam bara mannlegur, og hann hefði aldrei getað unnið öll sín illskuverk nema með hjálp annarra - þar með talið þeirrar aðstoðar sem hann naut frá mörgum Vestrænum ríkjum þegar hann var að byggja undir veldi sitt í Írak.
Spjallaði við litla bróðir í síma í gær. Fyrst töluðum við um Survivor, síðan ER og loks Idolið. Greinilegt að hvorugt okkar er að farast úr fjörugu félagslífi þessa dagana. Samtalið byrjaði þó á samræðum um ball sem bróðurinn fór á með Geirmundi. Hjúkk - smá líf í öðru okkar. En sem sagt, aldrei þessu vant vorum við bara sammála um ýmislegt, m.a. að af þeim fjórum sem eftir voru fyrir síðasta Survivor þátt vonuðum við að Sandra ynni.
Jæja. Þetta virðist farið að rúlla. Enn á þó eftir að finna út tilvísunarkerfi, hvernig vísað er á aðrar síður og framvegis. Slíkt býður betri tíma. Orðin rasssár eftir að sitja við þetta í tvo tíma - tími sem átti auðvitað að fara í eitthvað allt annað...!
Ósköp gengur þetta illa hjá mér. Reyni enn og aftur.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?