<$BlogRSDUrl$>

Samfélagsrýni, pælingar um lífið og tilveruna og annað sem mér dettur í hug.

þriðjudagur, janúar 27, 2004

Ásgeir bróðir alveg að tapa sér í blogginu, þannig að það þýðir ekki annað en að reyna að skrifa nokkrar línur til að halda í við strákinn. Liggur þó ekki jafnmikið á hjarta og honum þessa dagana (Ásgeir, ef þú lest þetta þá er kommentakerfið þitt bilað núna).

Hef annars mest verið að pirra mig á pistlum annars sem heitir ekki Ásgeir, heldur Jakob, en er Ásgeirsson, sem skrifar í Viðskiptablaðið en gaf einnig út bók fyrir jólin um Valtý Stefánsson. Jakob þessi varð óhemjusár þegar gagnrýnanda fannst bókin hans ekki jafn frábær og honum fannst sjálfum og ákvað að þá væri í lagi að skrifa persónulegan níð bæði um gagnrýnandann og þáttastjórnandann. Þegar hann var gagnrýndur fyrir þetta svarar hann því að á þá leið að hann hafi aldrei reynt að sverta fólk persónulega vegna efnislegra skoðanna þeirra - en hann hefði hinsvegar þann kost að tala tæpitungulaust og væri ekki sú pempía að þora ekki að lepja upp kjaftasögur í virðulegum miðlum (orðaði það reyndar e-ð öðruvísi en að "lepja upp kjaftasögur" en í mínum huga er inntakið það sama). Ég held að maðurinn þurfi alvarlega á að halda að fara á námskeið í rökhugsun, ef honum tekst virkilega að telja sjálfum sér trú um að þau orð sem hann lét falla hafi ekki verið ómálefnaleg.

miðvikudagur, janúar 14, 2004

Ég þarf að vera duglegri að fara í leikfimi, þá verður mér kannski oftar boðið í mat. Fór í leikfimi á mánudagskvöldið og þegar ég kom til baka, glorhungruð, beið mín sms frá frænku minni að mér væri boðið í mat. Heppin ég. Svo fór ég í leikfimi nú í morgun, og þegar ég var að ganga um dyrnar heima, rétt fyrir hádegi, hringir farsíminn þar sem verið er að bjóða mér í hádegismat. Sennilega bara tilviljun - en skemmtileg tilviljun. Það breytir því hinsvegar ekki að ég þarf að vera dugleg í leikfiminni, ekki til að fá fleiri matarboð, heldur til að hrista af mér skammdegisslenið. Ég finn að ég er mun skapbetri dagana sem ég dríf mig í að hreyfa mig, fyrir utan að ég er töluvert mikið líklegri til að koma einhverju í verk. Það reynir nefnilega dálítið hressilega á viljastyrkinn hjá manni þegar maður er svona í vinnu hjá sjálfum sér.

mánudagur, janúar 12, 2004

Helgin var ekki sem verst. Horfði á Idolið með frænkum mínum á föstudagskvöld. Var ánægð að Anna Katrín hélst inni. Hún stóð sig ekki nógu vel um kvöldið, en mér finnst hún svo hæfileikarík að ég vildi fá að sjá hana með í lokaþættinum. Svo var heilmikið kórstúss. Fyrsta kóræfing ársins á laugardag og á sunnudag söng ég í messu. Fínt að byrja að syngja aftur eftir smá hlé um jólin. Laugardagskvöldið fór ég svo í mjög notalegan kvöldverð hjá frændfólki. Ætlaði að vinna í gær, sunnudag, en nennti því nú ekki en fór í staðinn í líkamsrækt þegar ég var búin í messunni. Síðan dreif ég mig í bíó um kvöldið - ein - á Mona Lisa Smiles. Hún var bara skemmtileg. Hugsa þó að Kaldaljós, sem ég fór á á fimmtudagskvöld, muni sitja lengur í minningunni. Hún var eitthvað svo ljóðræn og falleg, og strákurinn sem lék Grím ungan alveg frábær. Jæja, ég er að fresta því að fara að drífa mig að byrja á einu verkefni. Búin að skrifa nokkra tölvupósta og svo byrja ég að blogga - en nú er mál að linni og alvaran taki við.

föstudagur, janúar 09, 2004

Hér á mínum vinnustað er rætt um Hannes, Hannes og aftur Hannes. Allir sem á því hafa skoðun enda fræðimannasamfélag. Þegar ég sat í ca. 10-12 manna hópi í morgun, þar sem allir voru eitthvað svo innilega sammála um hvað bókin hans væri ómöguleg (voru reyndar fæstir búnir að lesa bókina, frekar en ég, sem hef ekki einu sinni flett henni) þá var ég allt í einu farin að halda með Hannesi og langaði að fara að verja hann. Vegna þess hversu aggressivur hann er sjálfur í gagnrýni sinni á annað fólk, þá er einhvernvegin eins og sé skotleyfi á hann á móti og megi láta allt flakka. Mér var farið að finnast nóg um og finnt gæfulegra að reyna að dæma bókina án þess að blanda persónunni sem skrifaði hana allt of mikið inn í málið. Og þar sem ég hef ekki lesið bókina, eins og fyrr segir, þá á ég erfitt með að meta hversu réttmæt gagnrýnin á hana er. Jæja, nóg um það. Ætli sé ekki best að fara að drífa sig í helgarfrí eftir frekar rólega vinnuviku. En samt... ég kom ýmsum málum af stað og er komin í gang...
Ég var lengi að komast í gang á nýja árinu. Eins og ryðguð bílvél sem hóstar bara þegar á að reyna að ræsa hana eftir að hafa verið ónotuð í langan tíma. En þetta er allt að koma. Komin vel af stað í líkamsræktinni, búin að fara þrisvar á fjórum dögum og farin að fá strengi á ýmsum furðulegum stöðum enda búin að liggja í hreyfingaleysi í vel á þriðja mánuð. Finn hvað er gott að svitna aftur og reyna svolítið á sig. Aðeins farin að glæðast verkefnastaðan þannig að þetta lítur ekki illa út - a.m.k. út janúarmánuð.

föstudagur, janúar 02, 2004

Skaupið. Verður maður ekki að segja eitthvað um það? Æi nei, það er svo skelfilega lítið að segja nema maður nenni að vera neikvæður og leiðinlegur. Ármann bróðir hringdi frá Kanada í miðju skaupi og baðst afsökunar að trufla mig frá skaupinu, en ég get nú ekki sagt að ég hafi verið mjög leið að missa af nokkrum mínútum miðað við hvernig þær mínútur sem ég sá voru. Hafði meira gaman af hinum ýmsu umræðuþáttum fyrr um daginn þar sem farið var yfir það sem hæst bar síðastliðið ár. Skal samt alveg viðurkenna að umræðuþættirnir voru orðnir fullmargir - Maður á mann, Kryddsíldin, Silfur Egils og svo bættist Akureyrarþáttur við á Aksjón, þar sem ég er enn norðan heiða....
GLEÐILEGT NÝTT ÁR. Fór í Hagkaup og tókst að eyða rúmum 9000 krónum í allt mögulegt. Á mánudaginn ætla ég að kaupa mér 3ja mánaða líkamsræktarkort - eins og vera ber í byrjun ársins.... Datt í hug að prófa nýju miðstöðina í Laugardalnum. Þar er hægt að kaupa 3ja mánaðar kort á 42 þúsund ef maður er ríkur og hefur nógan tíma - og getur þá dundað sér í hinum ýmsu baðstofum, en fyrir okkur hin sem tilheyrum publiknum er sem betur fer hægt að kaupa líka kort á 17.000 krónur. Enginn baðsloppur og sér búningaklefi, en aðgangur í leikfimitímana, sund og tækjasal, sem er hvort eð er aðalmálið. Ég fór aldrei í heita pottinn í Baðhúsinu þó ég hafi átt kort þar nokkurnvegin samfleytt í þrjú ár. Samt var potturinn ein ástæðan að ég keypti kort þar í upphafi - en svo bara komst ég aldrei í það að prófa hann...

This page is powered by Blogger. Isn't yours?