<$BlogRSDUrl$>

Samfélagsrýni, pælingar um lífið og tilveruna og annað sem mér dettur í hug.

mánudagur, mars 29, 2004

Helgin
Helgin var óvenju annasöm. Kóræfing, tónleikar, leiksýning, matarboð.... Mér líður hálf undarlega þessa dagana enda tilveran verið frekar óvenjuleg undanfarnar vikur - eða eiginlega undanfarna mánuði. Alveg síðan í desember hefur mér líðið eins og ég sé stödd í einhverju tómarómi og viti ekki almennilega hvert ég er að fara. Hef þurft að taka á öllu sem ég á til að halda fast í sjálfsmyndina, hver ég er og hvað ég stend fyrir. Er að vonast til að ég sé farin að sjá í ljósið og framundan sé aðeins meira fast land undir fótum. Lífið er leiðinlegt án hæfilega mikillar óvissu. Það verður að vera pláss fyrir hið óvænta. En mér finnst svolítið erfitt þegar óvissan ríkir á öllum sviðum lífsins í einu.

föstudagur, mars 26, 2004

Leiðinlegasta verki ársins lokið....
Það tókst, það tókst. Skattskýrslan er búin. Sú flóknasta til þessa og ég hélt ég ætlaði aldrei að losna við allar villurnar. En þetta hafðist að lokum og launin voru ánægjuleg - ef ég hef slysast til að gera þetta rétt fæ ég meira en nóg borgað til baka í ágúst til að standa skil á námslánum í haust. Í fyrsta sinn sem ég á von á glaðningi frá Skattinum á haustin í stað þess að fá reikning frá þeim. Jibbý ;-)

þriðjudagur, mars 23, 2004

Hitt og þetta
Ég ætla í Borgarnes í dag. Gaman, gaman. Ég held að ferðaþráin hverfi aldrei úr blóðinu. Nú er ég búin að hanga á sama blettinum í svo margar vikur að það þarf ekki meira en smá skrepp í Borgarnes á fund til að skapið lagist! Ég sem hélt síðasta haust, eftir 10 utanlandsferðir á einu ári, að ég yrði dauðfegin að fara ekki neitt í mjög, mjög langan tíma.... Nú er ég hinsvegar hæstánægð að framundan séu a.m.k. tvær utanlandsferðir. Fer til Kanada eftir rúman mánuð og svo vikuferð til Frakklands með kórnum í júní :-)

Verkefnastaðan að glæðast mjög mikið og nú er bara að finna tíma til að vinna í þessum verkefnum. Held ég verði að fara að gefa hugsanlega fasta stöðu upp á bátinn og hella mér bara út í þennan sjálfstæða rekstur minn. Þýðir ekki að vera með eitthvað hálfkák í þeim efnum.

miðvikudagur, mars 17, 2004

Orka og útgeislun
Skrýtið hvernig fólk hefur mismunandi áhrif á mann, oft án þess að hægt sé almennilega að festa hendur á hvers vegna. Ókunnur maður varð á vegi mínum fyrir tilviljun og ég fékk strax ólýsanlega neikvæða tilfinningu gagnvart honum. Eitthvað við hvernig hann bar sig að. Þetta var áður en hann byrjaði að tala við mig. Eftir að hann byrjaði að tala við mig versnaði þessi tilfinning til muna. Samt voru umræðuefnin eðlileg og ég gat ekki skýrt þessi áhrif með neinu áþreifanlegra en að hann hefði ekki góða útgeislun. Virtist heldur ekki geta lesið kurteisisleg merki um að tími minn væri á þrotum og ég þyrfti að fara að sinna öðru. Loksins tóks mér þó að ljúka samtalinu og maðurinn hvarf á braut. Var hugsi á eftir og velti fyrir mér hvernig stæði á þessum sterku neikvæðu viðbrögðum hjá mér. Komst að því nokkru síðar að viðkomandi gengur ekki heill til skógar og einhvernvegin hef ég skynjað það. Atvikið minnti mig enn og aftur á hvað er margt sem við lesum úr umhverfi okkar ómeðvitað. Einhverskonar orka sem er í kring um allar manneskjur, og jafnvel á ákveðnum stöðum, sem við finnum án þess þó að sjá. Merkileg veröld.

föstudagur, mars 12, 2004

"Bráðum kemur betri tíð, með blóm í haga, sæta, langa sumardaga." Er með laglínu við þessar ljóðlínur klingjandi í höfðinu á mér. Vona bara að það sé merki um eitthvað :-) Árshátíð um helgina. Annars ekkert merkilegt um að vera. Hlakka til maí þegar ég fer til Kanada. Það er gott að hafa eitthvað til að hlakka til.

þriðjudagur, mars 09, 2004

Rok og rigning
Þegar ég var lítill var einn fyndnasti brandari sem ég heyrði um páfagauk sem var fastur í brók konu einnar og kvartaði mikið undan því að þar væri bæði rok og rigning. Finn ekki alveg flötinn á því í dag hvers vegna mér fannst þetta svona óstjórnlega fyndið á sínum tíma, en af einhverjum ástæðum rifjast þetta allt í einu upp fyrir mér þegar ég horfi út um gluggan þar sem úti er bæði rok og rigning og fremur ófrýnilegt á að líta. Ætla að reyna að vera dugleg að vinna í dag. Loftslagsverkefnið að komast á skrið og peningarnir byrjaðir að skila sér þar inn eftir allar umsóknirnar sem við erum búin að senda út um hvippinn og hvappinn.

fimmtudagur, mars 04, 2004

Spádómur Vífielfells
Ég keypti mér diet-kók áðan og innan í flöskunni var eftirfarandi spádómur:

Þér leiðist um þessar mundur en þú ættir ekki að gefast upp eða missa móðinn því hér er um nokkurs konar próf að ræða þar til næsti kafli hefst. Hér er eins konar þjálfun á ferðinni sem er án efa undirbúningur fyrir stöðuhækkun og næsta skref sem þú ert um það bil að taka. Þú uppskerð vel en aðeins ef þú sýnir þolinmæði.

Ég er nú ekki alveg á því að fara að treysta kókfyrirtækinu fyrir örlögum mínum, en samt hálf skuggalegt hvað spádómurinn rýmar við líðanina þessa dagana!

þriðjudagur, mars 02, 2004

Stundum er erfitt að skilja mannlegt eðli. Fer ekki nánar út í hvers vegna mér er þetta ofarlega í huga í dag. Mig langar hinsvegar að ræða heimahjúkrun. Eru einhverjir fleiri en ég sem skilja ekki alveg út á hvað deilan gengur? Út á við koma stjórnendur heilsugæslunnar mjög illa út. Ég geri mér grein fyrir að oft sér maður aðeins brot af málinu þegar fylgst er með því gegn um fjölmiðla, en mér finnst rökin sem komið hafa frá stjórnendum langt í frá nógu sterk til að réttlæta stórfellda skerðingu á kjörum. Annars rifjar deilan upp hvað sjúkraliðar eiga frábærann talsmann í formanni sínum, Kristínu Á. Guðmundsdóttir. Hún er ótrúlega rökföst og röggsöm. Man á sínum tíma, í framhaldi af verkfalli sjúkraliða, var hún fengin á framboðslista í pólítík en hélt ekki áfram þar. Get ekki ímyndað mér annað en að hún yrði afar frambærileg í stjórnmálum.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?